Röst sjávarrannsóknasetur tók þátt á málþingi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um aðlögun að loftslagsbreytingum þar sem fyrsta aðlögunaráætlun íslenskra stjórnvalda, sem birt var rétt fyrir áramót, var kynnt og rædd í Norræna húsinu.
Á málþinginu var fjallað um hvernig loftslagsbreytingar eru þegar farnar að hafa áhrif á íslenskt samfélag og náttúru. Þar kom m.a. fram að árið 2025 hafi verið hlýjasta ár í skráðri sögu Íslands, úrkomuákefð hafi aukist, hafís minnkað og að hækkandi sjávarstaða og aukinn sjógangur ógni innviðum víða um land.
Ráðherra fjallaði meðal annars um samspil hafstrauma og loftslagsbreytinga og lagði áherslu á að ákvarðanir um aðlögun að loftslagsbreytingum verði að byggja á traustum gögnum. Í nýju áætluninni er því lögð sérstök áhersla á uppbyggingu þekkingargrunns og gagna sem byggt verði á til greininga og forgangsröðunar aðgerða.

Elín Björk Jónasdóttir stýrði umræðum og pallborðsgestir voru þau Aðalheiður Snæbjarnardóttir hjá Lansbankanum, Jóhanna Gísladóttir hjá Landbúnaðarháskólanum, Finnur Ricart Andrason hjá Sambandi íslenskra sveitafélaga og Sveinn Margeirsson hjá Brim.
Eitt af sex forgangsatriðum áætlunarinnar er að efla vöktun á íslenskri náttúru betur. Í kjölfar spurningar frá Birki, framkvæmdastjóra Rastar, til pallborðsgesta um hvort hafrannsóknir dagsins í dag séu nægar til að taka upplýstar ákvarðanir um aðlögun að loftslagsbreytingum, var m.a. rætt að loka þyrfti þekkingarglopum á málefnum hafsins með auknum hafrannsóknum. Til að ná því þurfi að byggja upp og samnýta innviði og getu til hafrannsókna. Í pallborðsumræðum kom einnig fram hve náttúrutengd áhætta sé okkur oft óljós en bankakerfið sé nú farið að meta slíka áhættu í fyrsta sinn. Þá var fjallað um súrnun sjávar sem vaxandi áhættuþátt fyrir vistkerfi og sjávarútveg á Íslandi og mikilvægi þess að magnbinda og miðla vísindalegri þekkingu.

Elva Rakel Jónsóttir hjá Festu - miðstöð um sjálfbærni, Karen Björk Eyþórsdóttir hjá Röst sjávarrannsóknasetri og Laura Sólveig Lefort Scheefer hjá Ungum Umhverfissinnum.
Röst þakkar fyrir málefnalega og góða umræðu. Aukin þekking á áhrifum loftslagsbreytinga er lykill að því að auka viðnámsþrótt Íslands gagnvart þeim áskorunum sem framundan eru og við hjá Röst erum full eftirvæntingar að halda áfram að leggja okkar af mörkum við vísindalega þekkingaröflun á hafinu.
Myndir eru birtar með leyfi af vefi Stjórnarráðs Íslands.

