Súla er þriggja og hálfs metra langt far sem líkist kajak og er hönnuð til að afla nákvæmra gagna um ástand hafsins. Gögn frá Súlu geta m.a. veitt okkur aukinn skilning á samspili loftslagsbreytinga, strauma hafsins og lífríki þess. Hingað til hafa stór rannsóknarskip, knúin af jarðefnaeldsneyti, verið notuð til slíkra mælinga hér á landi og má því segja að um sé að ræða upphaf nýs tímabils í hafrannsóknum við Ísland, bæði hvað varðar hagkvæmni og kolefnisspor rannsókna. Farið er rafknúið og nýtir sólarorku þar sem raforkunotkun þess er bestuð fyrir rannsóknarverkefni þess hverju sinni. Smæð Súlu gerir henni svo kleift að afla gagna á grunnsævi, t.d. í ferskvötnum og fjörðum Íslands þar sem rannsóknarskip hafa ekki áður komist.
Þar sem farið er sérstaklega hljóðlátt getur það safnað gögnum með minnstu mögulegu truflun fyrir lífríki hafsins og því hvorki áhætta á hljóð- eða olíumengun frá því. Hver rannsóknarleiðangur Súlu getur varað í marga daga og er farið sérstaklega byggt til að þola erfiðar aðstæður á hafi úti.
Vonir eru bundnar við að Súla muni einnig nýtast öðrum, m.a. til þess að fylgjast með breytingum á hafstraumum og öðrum lykilþáttum í hafinu. Röst mun nýta farið í fyrsta sinn við sjávarflæðisrannsókn í Hvalfirði og og að þeirri rannsókn lokinni er Röst sjávarransóknasetur opið fyrir hvers konar samstarfi og þjónustu tengt hafrannsóknum með Súlu.
Farið verður einnig til sýnis á ráðstefnu um málefni norðurslóða í Hörpu undir heitinu The Arctic Circle Assembly þann 17.-18. október næstkomandi. Gefst þá ráðstefnugestum tækifæri til þess að skoða mælitæki og búnað þess og fræðast um möguleika þess fyrir hafrannsóknir á Íslandi.
