Á næstu tveimur vikum stefnir Röst sjávarrannsóknasetur að því að framkvæma sjávarflæðisrannsókn í Hvalfirði með því markmiði að skilja flæði og hreyfingar sjávar í firðinum. Hafrannsóknastofnun hefur búið til hafstraumalíkan fyrir hafsvæðið umhverfis Ísland en líkanið nær ekki vel inn til fjarða. Röst fékk því óhagnaðardrifna rannsóknarfélagið [C]Worthy til að þróa nákvæmt staðbundið hafstraumalíkan af Hvalfirði.
Gögn rannsóknarinnar eru opin og aðgengileg öllum og því er möguleiki á að tengja þetta nýja Hvalfjarðarlíkan Rastar við núverandi hafstraumalíkan Hafrannsóknastofnunar og fá nákvæmara líkan af hafstraumum við Ísland en áður.
Við framkvæmd rannsóknarinnar verður litlu magni af vistfræðilega skaðlausu litarefni dreift á litlu svæði í Hvalfirði svo áætlað er að sýnilegt verði í skamman tíma. Áætlað er að rannsóknin muni eiga sér stað í tvo daga á tímabilinu 6. - 19. október þegar veður gefst til. Fylgst verður með dreifingunni með drónum (ómönnuð loftför) sem eru búnir LiDAR og fjölrófsmyndavélum, á meðan ómannað yfirborðsfar stundar mælingar frá yfirborði sjávar og niður á botn. Hægt er að lesa um rannsóknir sem beita svipaðri aðferðafræði hér.
Rannsóknin er samstarfsverkefni fjölmargra innlendra og erlendra vísindaaðila og óhagnaðardrifna vísindasamtaka, t.d. samtakanna [C]Worthy, bresku hafrannsóknarmiðstöðvarinnar National Oceanography Centre (NOC), Háskóla Íslands og vísindahópsins Ebb Carbon en rannsóknin er fjármögnuð af óhagnaðardrifnu samtökunum Carbon to Sea Initiative.
Röst vill árétta að ekki stendur til að stunda rannsóknir á aukinni basavirkni sjávar á meðan beðið er eftir útfærslu íslenskra stjórnvalda á því hvernig skuli afgreiða slíkt rannsóknarleyfi. Sótt var um rannsóknarleyfi til að gera vettvangsrannsókn á aukinni basavirkni sjávar í Hvalfirði árið 2024. Íslensk stjórnvöld töldu ekki lagaramma til staðar til þess að geta veitt leyfi að svo stöddu og höfnuðu því beiðninni sumarið 2025. Leyfi var þó veitt fyrir sjálfstæðri sjávarflæðisrannsókn, sem um ræðir.
Um Röst
Röst er óhagnaðardrifið íslenskt félag sem hefur það markmið að stunda hafrannsóknir og vísindastarf sem m.a. felur í sér að byggja upp sérhæfða aðstöðu og getu til að veita vísindafólki á sviði hafrannsókna alhliða stoðþjónustu. Slíkt er gert með með því að hýsa og auðvelda hafrannsóknir og t.d. kanna samspil hafs og loftlags. Röst starfar í nánu samstarfi við rannsóknarstofnanir innanlands sem og utan.
