Frá opnun á Hafráðstefnu SÞ 2025. Skjáskot af YouTube Sameinuðu Þjóðanna: https://www.youtube.com/watch?v=pWcCtCy8gDM
Þjóðir heims samþykkja nýja aðgerðaráætlun í málefnum hafsins
10. júlí 2025 - kl. 20:24

Ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (UN Ocean Conference 2025), sem haldin var í Nice í Frakklandi dagana 9.-13. júní, lauk með sterkri samstöðu leiðtoga heims: vísindi eru undirstaða árangursríkra aðgerða í hafmálum. Á ráðstefnunni staðfestu þjóðhöfðingjar og ríkisstjórnir á ný skuldbindingu sína við sjálfbærnimarkmið 14 („Líf í hafi“) og undirstrikuðu brýna nauðsyn þess að vernda lífsnauðsynleg vistkerfi hafsins.


Aðgerðaáætlun Nice fyrir hafið, sem yfir 170 ríkisstjórnir samþykktu, undirstrikaði „nauðsynlegt hlutverk [hafsins] í að draga úr skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga“ og tók skýrt fram að „aðgerðir í málefnum hafsins verða að byggjast á bestu tiltæku vísindum og þekkingu.“ Áætlunin styður einnig „nýjar vísindarannsóknir til að takast á við þær fjölmörgu áskoranir sem hafið stendur frammi fyrir.“

Ráðstefnan einkenndist af sterkri evrópskri forystu í að beita vísindamiðuðum nálgunum. Þrátt fyrir óvissu á heimsvísu lögðu ESB-ríki ítrekað áherslu á að traust stjórnun og nýting hafs verði að byggjast á nákvæmum vísindarannsóknum og alþjóðlegu samstarfi. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Íslands tók afgerandi undir þessa forgangsröðun, enda hefur Ísland verið á meðal fremstu þjóða í að byggja sjálfbæra nýtingu hafsins á vísindum.

ESB kynnti megináherslur sínar og heitir 1 milljarði evra til stuðnings þeim, þar af var þriðjungur sérstaklega ætlaður til rannsókna og vísindaverkefna. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði: „Þekking er eitt öflugasta verkfærið til verndunar hafsins... Markmið okkar er að endurvekja 20% af evrópskum sjávarvistkerfum fyrir árið 2030.“

Fyrir Ísland eru margvísleg tækifæri til að leiða öflugt vísindastarf í málefnum hafsins og byggja upp mikilvæga þekkingu á þessu sviði. Við hjá Röst Sjávarrannsóknasetri erum staðráðin í að byggja á þeim framförum sem náðust á UNOC með því að halda áfram að stunda mikilvægar grunnrannsóknir og vísindastarf sem tengist hafrannsóknum og loftlagsmálum.