Árlegt hringborð Norðurslóða (Arctic Circle Assembly) átti sér stað í Hörpu í síðasta mánuði. Þar tóku yfir 2000 þátttakendur frá nær 70 löndum þátt í þriggja daga ráðstefnu um málefni norðurslóða þar sem nýjasta þekking í m.a. umhverfis- og hafrannsóknum á norðurslóðum var kynnt. Meðal þeirra sem tóku þátt voru stjórnendur vísindastofnanna og alþjóðlegra fyrirtækja, frumbyggjar frá heimsskautasvæðinu, ráðherrar og aðrir leiðtogar frá hinum ýmsu heimshornum sem og fulltrúar loftslagssamtaka.
Röst sjávarrannsóknasetur setti upp vel heppnaða sýningu á starfsemi sinni fyrir ráðstefnugesti í Hörpu, sem vakti athygli bæði innlendra og erlendra aðila. Þar voru sýnd nokkur af mælitækjum félagsins, en þar sem ráðstefnan fór fram samhliða sjávarflæðirannsókn í Hvalfirði gafst ekki tækifæri til þess að frumsýna nýtt hafrannsóknafar Rastar, Súlu, þar sem hún var vant við látin við rannsóknir úti á sjó. Gestum gafst hinsvegar tækifæri til þess að skoða tæknilega eiginleika hennar sem og annars búnaðar Rastar á sérstaklega hönnuðum ölduskjám eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni. Starfsfólk Rastar átti fjölmörg góð samtöl um framtíð hafrannsókna á Íslandi, m.a. um notkun sjálfstýrðra mælitækja og aukna kortlagningu hafsvæða.
Sem óhagnaðardrifið íslenskt félag stuðlar Röst að auknum rannsóknum í hafi og býður upp á fjölþætta samstarfsmöguleika fyrir aðila sem vilja standa að margvíslegum rannsóknum um hafið. Fyrsti samstarfsaðili Rastar, bandarísku óhagnaðardrifnu samtökin Carbon to Sea Initiative, hafa nú þegar opnað fyrir alþjóðlegt samstarf Rastar m.a. við aðila frá Bretlandi, Kanada, Bandaríkjunum . Líkt og Hringborð Norðurslóða leggur Röst áherslu á að efla fjölþjóðlega samvinnu um heilsu hafsins, hvort sem slíkt tengist loftslagsbreytingum, umhverfismálum, vistkerfum eða öðrum þáttum.
Röst þakkar frábærar viðtökur á Hringborði Norðurslóða í ár. Markmið ráðstefnunnar tala skýrt inn í okkar stefnu um að efla vísindarannsóknir, styrkja hafrannsóknastarf og efla umræðu um framtíð norðurslóða, sérstaklega í ljósi þeirra umhverfisbreytinga sem eiga sér nú þegar stað. Við fögnum því að þessi brýnu viðfangsefnum séu dregin fram, því ljóst er að framtíð og stöðugleiki svæðisins, þar á meðal Íslands, liggur í okkar höndum og þar gegna rannsóknir lykilhlutverki.
