Nýlega lauk Röst sjávarrannsóknasetur, ásamt innlendu og erlendu vísindafólki, við sjávarflæðisrannsókn í Hvalfirði. Um er að ræða sjálfstæða rannsókn sem hafði það markmið að öðlast betri skilning á sjávarflæði fjarðarins, en sá skilningur getur einnig nýst til betri þekkingar á haffræðiferlum við Ísland og á sambærilegum hafsvæðum. Rannsóknin gekk með eindæmum vel og tókst að safna nægum gögnum sem nú er unnið úr. Segja má að nýr tæknibúnaður og vísindafólk hafi staðist vel þá prófraun sem felst í því að stunda slíkar rannsóknir á þessum árstíma við Ísland, enda var notast við íslenska reynslu og þekkingu í verkfræði og hafrannsóknum samhliða reynslu vísindafólks sem hefur stundað heimskautarannsóknir.
Við framkvæmd rannsóknarinnar var notast við vistfræðilega skaðlaust litarefni sem dreift var á litlu svæði í firðinum, og fylgst með dreifingu þess með drónum og yfirborðsförum sem búa yfir margskonar mælitækjum og neðansjávarmyndavélum. Einnig var sérhannað hátækniblöndunartæki (sem blandar litarefni með stöðluðum hætti við sjó) notað við rannsóknina sem smíðað var á Íslandi af VHE ehf í samstarfi við Ebb Carbon sem sérhæfir sig í sjávartæknilausnum.
Rannsóknin var jafnframt jómfrúarferð nýs hafrannsóknarfars Rastar, Súlu, sem stóðst allar væntingar og sýndi fram á aukna möguleika í nákvæmri gagnasöfnun í hafi og vötnum umhverfis og á Íslandi. Súla er ómannað far, fyrst sinnar tegundar á Íslandi, og sérhannað af kanadíska fyrirtækinu Open Ocean Robotics til þess að afla nákvæmra gagna um ástand hafs og vatns á Íslandi.
Að rannsókninni kom vísindafólk sem er í fremstu röð á sínu sviði m.a. frá bresku hafrannsóknamiðstöðinni National Oceanography Centre (NOC), hafsamtökunum [C]Worthy, Háskóla Íslands og vísindahópnum Ebb Carbon. Þessi rannsókn Rastar var fjármögnuð af óhagnaðardrifnu samtökunum Carbon to Sea Initiative.
Rannsóknin tók um tvær vikur og vann vísindafólk að henni alla daga vikunnar á meðan dagsbirta leyfði. Straummælir, svokallaður ADCP (Acoustic Doppler Current Profiler), sem var notaður í samstarfi við Háskóla Íslands, safnaðicgögnum í einn mánuð til viðbótar, og er því þegar þetta er skrifað enn við gagnasöfnun til að geta gert betur grein fyrir hreyfingum sjávar við breytilegar aðstæður.
Öll gögn frá rannsókninni verða öllum opin og aðgengileg í samræmi við opna gagnastefnu Rastar og hlakkar Röst sjávarrannsóknasetur til að deila þeim með almenningi.
